Ýmis Lyf

Lyfjameðferð við beinþynningu

Lyfjameðferð er mælt með fyrir alla sem hafa fengið beinþynningarbrot, þar sem hættan á frekari brotum er veruleg og forvarnir skipta miklu máli.

Fyrir þá sem ekki hafa fengið beinþynningarbrot byggist ákvörðun um lyfjameðferð á niðurstöðum beinþéttnimælingar ásamt einstaklingsbundnu áhættumati, svo sem fjölskyldusögu, aldurs og annarra sjúkdóma.

Ákvörðun um lyfjameðferð er alltaf tekin í samráði við lækni, sem metur heildaráhættu einstaklingsins.

Mörg lyf eru í boði til að meðhöndla beinþynningu, og val á lyfi fer eftir aldri, heilsufari og öðrum áhættuþáttum. Helstu flokkar lyfja eru:

  • Bisfosfónöt (t.d. Alendronat, Zoledronat) – hægja á beinniðurbroti og styrkja bein.
  • Denosumab (Prolia) – hindrar niðurbrot beina með áhrifum á frumur sem brjóta niður beinvef.
  • Teriparatide (t.d. Terrosa, Sondelbay) – örva nýmyndun beina og stuðla að styrkingu þeirra.
  • Romosozumab (Evenity) – eykur beinmyndun og dregur úr beinniðurbroti.


Bisfosfónöt
Bisfosfónöt

Bisfosfónöt í töfluformi.

Meðferð með bisfosfónöttöflum krefst þess að nýrnastarfsemi sé nægilega góð (kreatínínhreinsun ≥ 35 ml/mín).
Einnig er mikilvægt að útiloka ómeðhöndlaðan kalk- eða D-vítamínskort áður en meðferð hefst, þar sem slíkt þarf að leiðrétta fyrirfram.

Töflurnar þarf að taka á réttan hátt til að hámarka áhrif meðferðar og draga úr aukaverkunum, sérstaklega ertingu í vélinda og meltingarvegi.

Leiðbeiningar um inntöku
  • Taka skal lyfið að morgni, á fastandi maga, að minnsta kosti 30 mínútum áður en neytt er matar, drykkjar (að undanskildu vatni) eða annarra lyfja.
  • Lyfið skal eingöngu taka með fullu glasi af hreinu vatni (a.m.k. 200 ml) – Aðrir drykkir, þar með talið sódavatn, mjólk, safi eða kaffi, geta dregið úr frásogi lyfsins og minnkað virkni þess.
  • Töflurnar skulu gleyptar heilar – Ekki má mylja, tyggja eða leysa þær upp í munni, þar sem það getur valdið ertingu eða sárum í slímhúð meltingarvegar.
  • Eftir inntöku skal sjúklingur halda sér uppréttum (sitja eða standa) í að minnsta kosti 30 mínútur – Þetta hjálpar til við að koma lyfinu niður í maga og minnka hættu á ertingu í vélinda.
  • Ekki taka lyfið fyrir svefn eða áður en farið er á fætur að morgni – Það eykur líkur á ertingu í vélinda.

Mikilvægt
  • Ef gleymist að taka lyfið skal bíða þar til næsta fyrirfram ákveðna lyfjainntaka er og taka þá töfluna á réttum tíma. Ekki má tvöfalda skammt.
  • Ef aukaverkanir eins og verulegur brjóstsviði, kyngingarörðugleikar eða verkir í vélinda koma fram, skal hafa samband við lækni.