
Þögli sjúkdómurinn
Beinþynning (e.osteoporosis), er sjúkdómur sem einkennist af minnkuðum beinmassa og breytingu á uppbyggingu beina sem veldur því að þau verða gisnari og styrkur þeirra minnkar. Við þetta eykst hætta á brotum við óverulegt átak, þessi brot kallast lágorkubrot eða beinþynningarbrot.
Beinþynning er oft kölluð „þögli sjúkdómurinn“ þar sem hún gefur engin einkenni fyrr en bein brotna. Þess vegna getur fólk verið með beinþynningu án þess að vita af því.
Það er margt sem hægt er að gera til að styrkja beinin og draga úr líkum á brotum – bæði með næringu og hreyfingu. Það borgar sig að huga að beinunum til að fyrirbyggja brot.